12.07.2011
Þetta eru Thoth spilin sem Aleister Crowley samdi og fékk Lady Frieda Harris til að teikna fyrir sig. Þessi spil njóta mikillar virðingar, bæði fyrir listræna framsetningu og djúpstæða merkingu hvers spils.
Heiti spilanna er dregið af nafni guðsins Thoth sem var skrifari eða ritari guðanna í hinni Egypsku guðaflóru. Þannig er komin bein tilvísun í það sem nefnt er í grein okkar um Talnaspeki, að Tarot spilin séu bók andlegrar þekkingar nema á myndmáli.
Crowley sem helgaði líf sitt leitinni að andlegum skilningi og dulspeki var aðal hvatamaðurinn að hönnun spilanna. Lady Frieda Harris var fyrst og fremst listamaðurinn sem færði hönnun Crowley í form og liti en þó voru margar frumteikningar í upphafi frá Crowley sjálfum.
Margir hafa litið þessi spil hornauga því Crowley hafi farið mjög ótroðnar slóðir í sinni andlegu leit og mörg skrifa hans um þessi mál eru lituð af hugrekki hans til að horfast í aug við skuggana jafnt sem ljósið.
Því hafa margir litið hornauga margt sem þarna tengist hreinum göldrum og jafnvel óttast þau. Þeir sem hafa óhikað lært að nota þessi spil og tengt táknmyndir þeirra og dýpt við reynslu sína vilja þó engin önnur spil nota. Þeir hinir sömu fussa við því sem margir líta sem svartagaldur og myrkur.
Crowley sjálfur varaði við að setja veröldina niður í svart og hvítt og þó hann léki sér með ímyndir af sjálfum sér varðandi tengingar við dýrið eða almættið þá bar hann mikla virðingu fyrir báðu. Einnig má glöggt sjá þegar rit hans eru skoðuð af meiri dýpt að margar ytri yfirlýsingar hans voru beinlínis ætlaðar til að slá ryki í augu þeirra sem eingöngu rýna í yfirborðið og að hann réð yfir skilningi og dýpt sem fáum er gefin.
Allt þetta endurspeglast í því meistaraverki sem Thoth spilin eru. Því eiga þau verðugan sess meðal annarra spila sem hér eru notuð.
Til gamans mælum við lesningu á manteia-online um þessi spil.